Umbúðir og umhverfið

Tæki þau er framleiða EPS umbúðir skila hámarksnýtingu á hráefninu, lítið fellur til við framleiðsluna og við hana er einvörðungu notast við vatn, gufu og loft. Umbúðirnar menga ekki grunnvatn, hvort heldur við notkun, framleiðslu eða eyðingu. EPS umbúðir eru viðurkenndar til notkunar undir hverskyns matvæli og standast fullkomlega þær kröfur sem nútíma samfélag gerir til þeirra.

Í þeirri ágætu vakningu sem orðið hefur um umhverfisleg áhrif umbúða eða vöru á undanförnum árum, er mikilvægt að gera sér grein fyrir heildarferli eða lífssögu þeirra, stundum nefnt vistvægi. Magn náttúrulegra auðlinda og orku, auk tegundar, sem nýtt hafa verið við framleiðslu, hvort heldur á frum-framleiðslu stigi, framleiðslustigi eða við flutning skiptir í þessu samhengi miklu máli. Auk þess þarf að meta áhrif á vatnsnotkun, mengun og/eða landnytjar og bera saman við aðra kosti. Að þessu loknu er fyrst er hægt að leggja mat á hvort viðkomandi vara sé umhverfisvæn eða ekki. Oftar en ekki komast menn að því við slíkan samanburð að plast er betri kostur við umbúðagerð en ekki.

Í þessu sambandi er vert að leiða hugann að eftirfarandi:

 • Heimilissorp er um 5% af öllum úrgangi sem fellur til innan Vestur-Evrópu, af því eru plastefni um 7% af massa.
 • Af heildaúrganginum er plast einungis um 0,6% af massa.
 • Þrátt fyrir aukningu í notkun plastumbúða, hefur það ekki aukið á hlutfall þess í sorpi vegna þess að umbúðir hafa verið að léttast markvisst.
 • Léttari umbúðir, þá venjulega úr plasti krefjast minni eldsneytisnotkunar við flutning og flutningurinn mengar því minna.
 • Stærstur hluti plastiðnaðarins mengar ekki grunnvatn.
 • Einungis um 3-4% af olíuforða heimsins verður að lokum plastefni.

Til að stemma stigu við æ aukinni landeyðingu með urðun, hefur á undanförnum árum átt sér stað þróun í þá átt að nýta sorp til orkuframleiðslu. Nútíma tækni gerir kleyft að brenna sorpi í þar til gerðum ofnum á hreinlegan hátt. Plast er nauðsynlegt slíku ferli þar sem orkuinnihald þess er nánast hið sama og kola miðað við þyngd, og því hækkar það hitastig brunans og verður hann því hreinni fyrir vikið. Rúmmálsrýrnun við bruna er 85-90%. Sorpbrennsla hefur þekkst í Danmörku um árabil og væru aðrar Evrópuþjóðir á sama stigi og þeir hvað varðar orkunýtingu úr sorpi, gæfi það af sér orku sem samsvaraði 15-17 meðalstórum kjarnorkuverum. Það plast sem brennt er er við þessar kringumstæður er ekki aukning á brennslu olíu, heldur olíu í föstu formi sem hvort eð er hefði verið brennt.

Markmið okkar hlýtur engu að síður alltaf að vera að lágmarka úrgang eins frekast er kostur. Þetta hafa hönnuðir og framleiðendur að leiðarljósi við hönnun nýs varnings, vegna þess að þeir vita að með því að notast við plast við framleiðslu sína má draga úr:

 • orkunotkun
 • loftmengun
 • efnisnotkun
 • úrgangi
 • kostnaði

Nýlegar þýskar rannsóknir benda til þess að ef að hætt yrði t.d. að nota plast í umbúðir myndi heildaþyngd umbúða aukast um 300%, orka til framleiðsu þeirra myndi aukast um 100% og síðast en ekki síst myndi heildarrúmmál úrgangs aukast um 160%. Í dag eru plastumbúðir um 10% af massa allra umbúða. Þessi 10% eru notuð til þess að pakka 40-50% af allri framleiddri vöru. Þessar staðreyndir segja að okkar mati meira en mörg orð.