Saga Tempru

Tempra ehf.

Tempra ehf. er leiðandi á íslenskum markaði í framleiðslu á umbúðum fyrir ferskfiskútflutning og einangrun fyrir byggingariðnað úr EPS. Tempra hefur mikla reynslu af ráðgjöf til viðskiptavina vegna umbúða og húsaeinangrunar, sem og yfirgripsmikla þekkingu á mismunandi aðgerðum og þörfum við lausn ýmissa verkefna.

Framkvæmdastjóri Tempru ehf. er Magnús Bollason

Starfsemin

Framleiðsla Tempru skiptist í tvær megin framleiðslulínur, umbúðaframleiðslu og einangrun fyrir byggingar. Í umbúðahluta er framleitt allan sólarhinginn að lágmarki fimm daga vikunnar. Tempra hefur verið leiðandi í sjálfvirknivæðingu og í vinnslusal Tempru má finna 10 umbúðavélar með mikilli sjálfvirkni sem nýta 10 þjarka til aðstoðar starfsmanna við áprentun og stöflun. Í húsaeinangrunarhluta Tempru er eitt stórt blokkarmót sem framleiðir þriggja metra háa frauðplastkubba. Þessir kubbar, sem eru í heildina 3,6m3 , eru skornir niður með sjálfvirkri skurðarvél niður í einangrunarplötur í ýmsar stærðir fyrir mismunandi notkunarstaði bygginga. Að auki getur skurðarvélin skorið frauðplast niður í fjölbreytt mynstur, hvort sem það eru leikmyndir fyrir sýningar eða flókin form fyrir arkitekta.

Að jafnaði eru um 27 starfsmenn hjá Tempru þar sem fjórir starfsmenn eru á hverri vakt í umbúðaframleiðslu og tveir sem vinna við einangrun og tveir að auki í viðhaldi. Að jafnaði eru um fimm starfsmenn í sölu og afgreiðslu og tveir í útkeyrslu.

Verksmiðjuhúsnæði Tempru er um 3500 fm. þar sem lager þekur um 1500 fm. Starfsemi Tempru krefst töluvert af lagerplássi, enda er frauðplast 98% loft og gegnumstreymi vöru ört.

Verksmiðja Íshella 8

Vörurnar og umhverfið

Umbúðir úr EPS-efni eru ákaflega léttar miðað við rúmmál og þá þyngd sem þeim er ætlað að bera, enda 98% loft og einungis 2% plast. Þær einangra vel og halda kjörhitastigi vöru margfalt lengur en t.d. pappaumbúðir og bylgjuplastumbúðir. Auk þess eru þær vatnsþolnar og hvítur litur þeirra hrindir frá sér varmageislun sem annars gæti hitað innihaldið. Hvítur litur er jafnframt mikill kostur þegar unnið er með matvæli enda auðveldara að greina óhreinindi á hvítu yfirborði en dökku. EPS-umbúðir eru auk þess sterkar miðað við þyngd sem er mikilvægt þegar flytja þarf vöru með flugi. EPS-umbúðir eru viðurkenndar til notkunar undir hvers kyns matvæli og standast kröfur nútímans. Flestar umbúðir frá Tempru bjóðast áprentaðar, t.d. með vörumerki viðskiptavina eða erlendra kaupenda.

EPS er um það bil 98% loft og einungis um 2% plast, samansett úr mörgum örsmáum sellum. Við framleiðslu á einangrunarplasti er hvorki notað freon né önnur skaðleg efni sem valda gróðurhúsaáhrifum. EPS er 100% endurvinnanlegt, það ertir ekki húð við snertingu og ekki er krafist sérstaks útbúnaðar þegar unnið er með það, eins og tækninefnd ESB (CENTC 88) hefur bent á. Tækin sem notuð eru við framleiðsluna skila hámarksnýtingu á hráefninu, lítið fellur til við framleiðsluna enda er einvörðungu notast við vatn, gufu og loft. Umbúðir frá Tempru og einangrun úr EPS-efni menga ekki grunnvatn við notkun, framleiðslu eða eyðingu.

Hvort sem halda þarf fiski köldum eða húsum heitum vitum við að viðskiptavinir okkar þurfa að geta reitt sig á hágæðavöru og úrvalsþjónustu. Því hefur Tempra ehf. alla tíð lagt ríka áherslu á nýsköpun í þróun umbúða og einangrunar í samstarfi við viðskiptavini okkar, háskóla og rannsóknarstofnanir. Allar umbúðir eru matvælavottaðar og öll framleiðsla húsaeinangrunar er CE-vottuð og framleidd samkvæmt viðeigandi Evrópustöðlum.

Sagan

Stjörnusteinn: Fyrirtækið var stofnað 1984 af þeim Sigvalda H. Péturssyni og Kristni Halldórssyni og fékk nafnið Stjörnusteinn, sem mun hafa verið dregið af örnefni í Mosfellsbæ.

Kristinn og Sigvaldi, voru samnemendur í Útgerðartækni í Tækniskóla Íslands, á þeim árum sem hugmynd að stofnun félagsins vaknaði. Þeir höfðu m.a. unnið í sameiningu að verkefni fyrir LÍÚ, sem laut að tryggingamati íslenska  fiskiskipaflotans. Vafalítið má hins vegar telja að fyrstu hugmyndir að stofnun frauðplastkassaverksmiðju hafi vaknað í útskriftarferð Útgerðartækninema til Noregs. Þar kynntu menn sér m.a. fiskeldi þarlendra. Hér á landi voru þá uppi mikil áform í  laxeldi, og sáu þeir félagar sér leik á borði í að þróa umbúðir af svipuðum toga og þá voru að ryðja sér til rúms í Noregi. Stjörnusteinn leit dagsins ljós sem sameignarfélag og fyrstu tækin keypt á vormánuðum 1984. Fyrsti kassinn kom síðan út úr vél þeirra félaga á gamlársdag 1984.  

Vélasalur Stjörnusteinn

Laxeldisævintýrið, hið fyrsta, gekk hins vegar ekki upp. Þótti ekki hagkvæmt af ýmsum ástæðum. Fyrstu árin gekk rekstur Stjörnusteins því ekki eins og lagt var upp með, og var þess þá freistað að fá inn fjárfesta og breyta hluta skulda í hlutafé. Inn í rekstur Stjörnusteins komu þá áhættufjárfestar, m.a. Frumkvæði, (sem var áhættufjárfestir á vegum Félags íslenska iðnrekenda), O. Johnson & Kaaber, Hekla og Skeljungur. Fyrstu árin áttu stofnendur fyrirtækisins vart til hnífs og skeiðar þar sem öll orka og fjármagn fór í að greiða fyrir rekstri félagsins og vinna nýjar vörur og þjónustur. Íslenskur fiskútflutningur, hvort heldur frá eldi eða veiðum, bjó þá, og gerir enn, við nokkra sérstöðu að því leiti að annað hvort fluttu menn út frosið eða ferskt í gámum. Sigvaldi og Kristinn gátu breytt mótum þ.a. þau hentuðu til framleiðslu á kössum fyrir gámaútflutning og hélt t.d. útflutningur á söltum fiski í gámum lífinu í þeim á tíma. Meir um vert, báru þeir gæfu til að þróa umbúðir sem að auðvelduðu til muna og gerðu mun ódýrari, flutning á ferskum fiski í flugi. Þá voru nokkrir framsýnir menn farnir að senda ferskan fisk í flugi. 1993 reyndist félaginu hins vegar erfitt. Taprekstur var nokkur, skuldir hrönnuðust upp m.a. við greiðslufall stærstu viðskiptavina og lausafjárstaðan ákaflega erfið. Úr varð, að Sigvaldi keypti félaga sinn út úr rekstrinum síðsumars 1993. Upp úr 1995 fór að ganga betur og ári síðar var fyrsta árið sem greiddur var arður til eigenda, síðan þá hefur leiðin legið upp á við jafnt og þétt.

Húsaplast: Stofnað 1988 af Hannesi Eyvindssyni, Árna Eyvindssyni og Júlíusi Guðmundssyni með kaupum á fjölskyldufyrirtæki föðurs og föðurbræðra þeirra Hannesar og Árna, Víbró ehf, sem stofnað var 1957.

Fyrir rúmlega 63 árum síðan eða árið 1957, byrjuðu fjórir framsæknir bræður í Kópavogi, Eyvindur, Böðvar, Gunnar og Gottfreð Árnasynir, að framleiða plasteinangrun til húsaeinangrunar í fyrirtækinu Vibró hf, en gaman er að geta þess að nafnið Víbró kemur út frá “Við bræðurnir”.

Vélasalur Húsaplas

Efnið “expanded polystyrene”, EPS, var bylting frá eldra húsaeinangrunarefni sem var aðallega korkur á þeim tíma. Þessi nýja framleiðsla fór fram í húsakynnum þeirra á Dalvegi 24 í Kópavegi sem á þeim árum var eiginlega langt upp í „sveit“.

Á þessum árum og næsta áratug eftir fóru fleiri aðilar að hefja svipaða framleiðslu víða um Ísland. Mikill fjöldi minni verksmiðja voru reistar meðal annars í Bogarnesi, Bolungarvík, Akureyri, Egilstöðum, Vestmannaeyjum, Eyrarbakka, Selfossi, Hafnarfirði, Akranesi og í Reykjavík. Mestur komst fjöldinn uppí 18 á tímabilinu 1970-1984. Ástæða þess að svo margir gátu framleitt plasteinangrun á Íslandi var að margar litlar vélsmiðjur með færa iðnaðarmenn smíðuðu íslensk framleiðslumót til að steypa frauðplastblokkir sem síðan voru sagaðar niður í húsaeinangrunarplötur í bandsögum. Til framleiðslunnar þurfti þá sem nú gufuketil og var mikil þekking til staðar á þeim á þessum árum á Íslandi. Þá voru einnig smíðuð á Íslandi fleiri tæki til framleiðslunnar t.d. forþenslutæki og síðar skurðarbeddar með heitum vírum til að skera niður blokkirnar í einangrunarplötur.

Á næstu 25 árum varð einangrunarplast aðal einangrunarefni í húsbyggingum á Íslandi og eru þúsundir íbúða á Íslandi einangraðar með þannig einangrun. Upp úr 1985 fór verulega að halla undan fæti hjá framleiðendum húsaeinangrunar þegar Steinullarverksmiðja Sauðarkróks var reist sem keppti við plastframleiðendur við mjög svo ósanngjarnar samkeppnisaðstæður á þeim tíma vegna aðkomu ríkis og sveitarfélagsins. Var sú verksmiðja rekinn með tapi ár eftir ár en tókst að lokum með hjálp ríkisins og sveitarfélagsins að halda velli. Vegna þessarar erfiðu samkeppni fækkaði frauðplastverksmiðjum mikið og er talið að fjöldi þeirra hafi farið lægst niður í fimm.

Árið 1988 ákváðu Vibró bræður að selja verksmiðjuna og var hún seld að lokum til sona eins bræðranna, Eyvindar, þeirra Árna og Hannesar Eyvindssonar ásamt Júlíusi Guðmundssyni, starfsmanni Vibró. Við kaupin var nýtt félag stofnað sem fékk nafnið Húsaplast ehf og varð það nafn viðloðandi við þá starfsemi mörg ár eftir að félagið sameinaðist síðar. Við tók afar erfið samkeppni við ríkisreknu Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki. Til að halda velli í samkeppninni við Steinullina tók við tími fyrirtækjakaupa og frá árinu 1991 til 1999 keypti Húsaplast ehf nokkrar aðrar plastverksmiðjur t.d. Fjarðarplast ehf, Skagaplast ehf, Varmaplast ehf og Ísplast ehf. Þetta voru alveg nauðsynlegar aðgerðir til að viðhalda samkeppninni við Steinullarverksmiðjuna.

Lager Kópavogur

Tempra: Árið 1999 hófust viðræður um sameiningu Húsaplasts ehf í Kópavogi og Stjörnusteins ehf, í Hafnarfirði, um stærstu EPS verksmiðju á Íslandi undir stjórn Hannesar Eyvindssonar og Páls Sigvaldasonar, sonar Sigvalda Péturssonar, sem þá var annar stærsti eigandi Stjörnusteins ehf. Árið 2000 varð Tempra ehf til og um leið langstærsta frauðplastverksmiðja Íslands. Við tók tími uppbyggingar og undirbúningur flutnings verksmiðjanna undir eitt þak. Þá voru tekin stór skref í sjálfvirknivæðingu verksmiðjanna með kaupum á nýjustu tegundum framleiðslutækja til framleiðslunnar.

Eftir flutning

Við sameininguna varð um það bil tveir þriðju hlutar veltu fyrirtækisins í húsaeinangrun en árið 2021 voru rúmir tveir þriðjungar  af veltu fyrirtækisins í umbúðum. Þessi mikli vöxtur á undanförnum árum byggir fyrst og fremst á sífellt stækkandi mörkuðum þá sérstaklega í laxeldi og mikillar aukningar í ferskfiskútflutningi. Vélakostur hefur aukist jafnt og þétt með tilheyrandi aukningu en frá árinu 2005 hefur framleiðsla í tonnum þrefaldast.

Eignarhald Tempru breyttist árið 2007 þegar það varð hluti Promens samstæðunnar en árið 2015 varð það hluti RPC-Group, stærsta plastvöruframleiðanda í Evrópu. Sú samstæða sameinaðist árið 2019 bandaríska fyrirtækinu Berry Global. 

Um mitt árið 2022 varð Tempra hluti af Rotovia samstæðunni. Rotovia er alþjóðlegt framleiðslufyrirtæki sem á rætur sínar að rekja til Íslands og er í dag í eigu íslenskra fjárfesta. Félagið er eitt stærsta hverfisteypufyrirtæki í Evrópu, með tíu framleiðslueiningar í sjö löndum auk viðamikils sölunets á heimsvísu. Það þjónar fjölbreyttum hópi viðskiptavina í mismunandi atvinnugreinum, með sérstaka áherslu á matvælaiðnaðinn. Tekjum félagsins má skipta í tvo tiltölulega jafna hluta. Annars vegar tekjur  frá framleiðslu og sölu íhluta fyrir framleiðendur atvinnubifreiða, landbúnaðartækja, vindmylla, hreingerningavéla og báta og hins vegar tekjur vegna  framleiðslu og sölu á eigin vörum,  þar sem tvö  gamalgróin íslensk fyrirtæki með farsæla sögu vega þyngst – Tempra og Sæplast.